Brennslustöðin Kalka

Aðdragandi Kölku

Undirbúningsvinna vegna Kölku hefur staðið linnulaust frá árinu 1995.  Samkomulag náðist við Varnarliðið árið 2001 um staðsetningu og tilhögun nýrrar brennslu.  Þann 27. júlí 2002 var samningur við Héðinn undirritaður um byggingu nýrrar stöðvar fyrir 750 milljónir króna.  Þann 21.nóvember sama ár var fyrsta skóflustungan tekin af þáverandi formanni S.S., Sígríði Jónu Jóhannesdóttur.  Í desember 2002 hófst síðan vinna við byggingu stöðvar-og móttökuhúss og 22. apríl 2003 hóf Héðinn að reisa stálgrindarhúsið sjálft sem mun hýsa brennslulínuna.  Brennslulínunni var síðan skipað upp í Belgíu í endaðan júní og kom til landsins í byrjun júlí.  Í byrjun ágúst var byrjað að loka stálgrindarhúsinu í kringum brennslulínuna og sama tíma var byrjað á byggingu vigtar-og starfsmannahúsi. Í desember 2003 var byrjað að prufukeyra og fínstilla vélbúnaðinn.  Rekstur Kölku hófst síðan að fullum krafti um miðjan janúar 2004.

 

 Afkastageta Kölku

Afkastageta Kölku er um 12.300 tonn miðað við 7200 klst. brennslutíma á ári.  Brennslustöðin brennir allan almennan úrgang, auk þess sem hún getur brennt sértækan úrgangs eins og sóttmengaðan úrgang frá heilbrigðisstofnunum, spilliefni og úrgang frá erlendum skemmtiferðaskipum og flugvélum.  Þetta gerir stöðina einstaka hér á landi þar sem ekki er til fullkomnari brennslustöð á landinu, sem framfylgir öllum ströngum lögum og reglugerðum Evrópusambandsins hvað varðar mengunarvarnarbúnað.

 

Starfsemi brennsluofns

Brennsluofninn skiptist í tvö hólf sem snúast um sameiginlegan láréttan hallandi öxul.  Hitasundrunarhólfið er sívalningslaga en gösunarhólfið hefur þverstýft lag (sjá mynd).

Brennanlegum úrgangur sem komið er með inn í stöð er settur í sorpgryfju.  Þar er hann tekinn með búkkrana og grabba og settur inn í fæðisíló brennsluofnsins.

Í hitasundrunarhólfinu eru súrefnissnauðar aðstæður og hitastigið á milli 600 - 700 °C.  Hönnunin gerir ráð fyrir því að úrgangurinn sé nægjanlega lengi innan hitasundrunarhólfs til að tryggja það að lífrænum efnum í úrgangnum er umbreytt í "syngas" og kox eða svokölluð "svæld brennsla" þ.e. bruna án súrefnis.

Snúningshreyfing hitasundrunarhólfsins veldur því að koxið flyst inn í gösunarhólfið.  Þar er lofti dælt inn í takmörkuðu magni til að gasa koxið við 800°C, þ.e.a.s að brenna kolefnin úr koxinu og mynda lofttegundir og óbrennanlegar leifar.  Hitinn sem verður til vegna myndunar loftegunda, aðallega CO, úr koxinu er nægjanlegur til að viðhalda kjörhitastigi innan hitasundrunarhólfsins. Þetta gerir það að verkum að þörfin fyrir eldsneyti til að viðhalda kjörhitastigi er ekki til staðar.  Óbrennanlegar leifar eru síðan fluttar úr hólfinu, málmar hirtir úr þeim  og askan hirt til frekari meðhöndlunar.

Lofttegundir sem myndast í gösunarhólfinu, blandast við lofttegundir sem myndast í hitasundrunarhólfinu, vegna þess að þær fyrrnefndu streyma andstreymis miðað við ruslið í brennsluofninum.  Hinar blönduðu loftegundir fara í svokallað eftirbrennslurými, inn í hitaketil þar sem þær eru brenndar við hátt hitastig eða 1100-1200 °C í gnægð súrefnis.

Hægt er að nota orkuna, sem verður til við bruna lofttegundanna í hitakatlinum, til að framleiða gufu eða heitt vatn til rafmagnsframleiðslu og til upphitunar.  Eftir að reykurinn fer frá hitakatlinum er hann þurrhreinsaður, þar sem kalk eða natríumbíkarbónat eru notað sem ídræg efni.  Að lokum er hann hreinsaður með pokasíu áður en honum er sleppt út í andrúmsloftið.

Orkunýting

Sorpeyðingarstöðin fékk Hitaveitu Suðurnesja í lið með sér til að kanna hagkvæmustu leiðina til að nýta orku frá brennslustöðinni. Fljótlega kom í ljós að lítill markaður er fyrir heitt vatn frá stöðinni því var ákveðið að skoðaður yrði sá möguleiki að framleiða rafmagn.  Talið var heppilegast að virkja orkuna í samvinnu við Hitaveituna enda er hún með einkarétt á að selja orku inn á netið samkvæmt núgildandi lögum

Í upphafi unnu Sorpeyðingarstöðin, Hitaveitan og X-orka að úttekt á því hvort heppilegt væri að nota svokallaða  "Kalina" tækni við orkuframleiðslu en sú tækni byggir á að nýta lægra hitastig, sem gefur meiri raforku (allt að 700 kw) eins og m.a. er gert í dag á Húsavík.   Niðurstaða sérfræðinga Hitaveitunnar var að þessi tækni væri ekki nógu reynd til að nota hana.

Samningur var síðan undirritaður þann 15. maí s.l.  við Hitaveituna.  Samningurinn felur í sér að Hitaveitan leggur til og rekur allan búnað til raforkuframleiðslunnar, ásamt búnaði til að losna við afgangsvarma. Sorpeyðingarstöðin leggur til gufu til rekstursins og húsnæði fyrir búnaðinn.  Sorpeyðingarstöðin kaupir svo raforku af Hitaveitunni, sem tryggir orku til rekstursins, annað hvort frá rafstöðinni eða beint af netinu, sem eykur rekstraröryggið til muna.  Framleidd verða um 440 kW af raforku með gufutúrbínu. Af því notar stöðin mest um 300kW til eigin þarfa, en umframorkan fer út á almenna raforkunetið. Auk þess nýtir stöðin varmaorku frá brennslunni til upphitunar á húsi og lóð. Stöðin verður því sjálfbær bæði hvað varðar raforku og varma.  Brennsla til orkunýtingar er talin til endurvinnslu og hækkar endurvinnsluhlutfall stöðvarinnar því verulega við þetta. Samningurinn verður endurskoðaður að tveimur árum liðnum eftir að reynsla hefur fengist af rekstrinum.