Fara í efni

Flokkun úrgangs

Flokkun úrgangs og sorphirða

Innleiðing á nýju flokkunarkerfi mun hefjast um miðjan maí 2023 og standa fram á haustið. Breytingin er liður í löggjöf um breytta úrgangsmeðhöndlun sem tók gildi þann 1. janúar sl.

Í nýju flokkunarkerfi verður flokkað í fjóra flokka á hverju heimili, flokkarnir eru þessir:

Pappír / Pappi

Plastumbúðir

Blandaður úrgangur

Matarleifar

Til viðbótar við þessa fjóra flokka verður frekari söfnun á grenndarstöðvum þar sem gleri, málmum og textíl verður einnig safnað til viðbótar við pappír / pappa og plastumbúðir.

Matarleifum / lífrænum eldhúsúrgangi safnað í körfu með bréfpoka

Samhliða dreifingu á nýjum tunnum verður körfum og bréfpokum fyrir matarleifar dreift á öll heimili. Mikilvægt er að notast við bréfpoka fyrir matarleifarnar þar sem það eru þeir pokar sem jarðgerast best svo hægt verði að nýta moltuna sem vinnst úr sérsöfnuninni.

Karfan er svo sérstaklega hönnuð til þess að tryggja loftflæði að pokanum sem vinnur gegn því að pokinn fari að leka og rifna.

 

Merkingin gildir

Í lögunum sem verið er að innleiða er kveðið á um að allir notist við sömu merkingar fyrir úrgang og því verða allar tunnur merktar með merkingunum sem sjá má hér að ofan. Liturinn á tunnunni skiptir því ekki máli eftir innleiðinguna heldur verður það eingöngu merkingin sem stýrir því hvað fer í hvaða tunnu.

Hversu margar tunnur eiga að vera við mitt heimili?

Sérbýli

Við sérbýli verða þrjár tunnur, ein fyrir pappír / pappa, önnur fyrir plastumbúðir og sú þriðja verður tvískipt þar sem annað hólfið verður fyrir blandaðan úrgang og hitt hólfið fyrir matarleifar / lífrænan eldhúsúrgang.

Ekki verður í boði að vera með færri tunnur en með innleiðingu á borgað þegar hent er verður skoðað hvernig hægt verður að koma til móts við þá sem telja sig þurfa minna rými fyrir sinn úrgang

Fjölbýli

Við fjölbýli verða mismunandi útfærslur eftir aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum eins lítið og hægt er en ljóst er að einhver aukning mun eiga sér stað þar sem flokkarnir eru að fara úr tveimur í fjóra. Búið er að greina aðstæður á hverjum stað fyrir sig og meta þörfina og því þurfa íbúar ekki að panta nýjar tunnur.

 

Hvað þarf ég að gera?

Íbúar eru hvattir til þess að huga að aðstæðum fyrir tunnur við sín heimili og gera ráðstafanir þannig að auðvelt verði að koma tunnunum fyrir og tryggja að þær fari ekki á eitthvað flakk í næsta roki.

Við minnum á að íbúar eru ábyrgir fyrir að tunnum sé komið haganlega fyrir þannig að aðgengi að þeim sé gott fyrir þá sem sjá um að tæma.

Hversu oft eru tunnurnar tæmdar?

Eftir breytingarnar er gert ráð fyrir að endurvinnsluefni verði hirt á fjögurra vikna fresti við heimili en að blandaður úrgangur og matarleifar verði hirt á tveggja vikna fresti.

 

Hvað verður um matarleifarnar mínar?

Matarleifar / lífrænn eldhúsúrgangur frá Suðurnesjum fer í gas- og jarðgerðarstöðina GAJU þar sem honum verður umbreytt í metangas annars vegar og jarðvegsbæti (moltu) hins vegar.

Má ég ekki lengur setja málma með í endurvinnslutunnurnar?

Nei, þar sem endurvinnsluflokkarnir eru nú aðskildir fer sérsöfnun á málmum fram á grenndarstöðvum.

Hvað má fara í tunnurnar?

Dæmi um það sem má fara í tunnurnar má sjá hér að neðan. Þegar íbúar eru í vafa um í hvaða flokk eigi að setja úrgang hvetjum við til þess að leitarvélin á www.flokkum.is verði notuð en ef ekki gefst tími til þess er betra að setja í blandaðan úrgang en að rangflokka í hina flokkana. Við berum sameiginlega ábyrgð á því að heimtur á endurvinnsluefnum verði góðar og gæði efnisins eins góð og mögulegt er.

Af hverju þarf ég að flokka?

Flokkun úrgangs er gríðarlega stórt umhverfisverkefni þar sem mikilvægt er að endurnýta það sem hægt er og sporna þannig gegn ágangi á auðlindir jarðar. Þegar við flokkum komum við efnunum aftur inn í hringrásina og getum þannig dregið úr úrgangsmyndun.

Hvað gerist ef ég flokka ekki?

Ef ekki er rétt flokkað í tunnur við heimili eru skýr fyrirmæli í lögunum um það að skilja tunnurnar eftir. Ábyrgðin færist þá yfir á íbúa að lagfæra efnið í tunnunni þannig að hægt sé að tæma þær í næstu ferð.

Hversu hreint þarf endurvinnsluefnið að vera áður en það er sett í tunnurnar?

Endurvinnsluefnið þarf að vera nokkuð hreint en ekki er þörf á að sótthreinsa umbúðir..

Hvað geri ég ef tunnan mín er brotin?

Ef tunnan þín þarfnast lagfæringar bendum við íbúum á að hægt er að fylla út beiðni á vefsvæði Kölku, sjá nánar hér.

Ef þörf er á úrbótum á aðbúnaði við húsnæði er það alfarið á ábyrgð eigenda og hvetjum við íbúa til þess að huga að því að aðgengi sé gott og að sorpskýli / sorpgerði samræmist byggingarreglugerð. Við minnum einnig á að við berum sameiginlega ábyrgð á umhverfi okkar og að snyrtilegt samfélag verður til með þátttöku þeirra sem í samfélaginu búa.

Hvernig safna ég matarleifum og hvernig poka á ég að nota?

Matarleifum verður safnað í bréfpoka sem brotna auðveldlega niður , Sveitarfélögin úthluta bréfpokum til íbúa til að byrja með til að tryggja söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Sveitarfélögin útvega íbúum einnig ílát til að safna lífrænum úrgangi inn á heimilum.

 

Munu bréfpokarnir ekki leka?

 Söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi kallar að hluta til á breyttar venjur. Þær munu meðal annars fela í sér að passa að blautar matarleifar fara ekki í bréfpokana eða þá að farið sé reglulega með þá út í tunnu. Ef mjög blautar matarleifar fara í pokana verður hægt að setja eldhúspappír í botn þeirra.

Munu matarleifar ekki lykta illa í tunnunni?

Ef það er ekki koma ólykt úr almennu tunnunni núna þá mun ekki koma ólykt úr lífrænu tunnunni eftir breytingar. Samsetning úrgangsins mun ekki breytast heldur mun úrgangurinn bara vera í sitthvorri tunnunni en ekki blandaður saman eins og áður.

Af hverju þarf ég að flokka matarleifar?

Söfnun á matarleifum eða lífrænum úrgangi er stórt skref í átt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Úr lífrænum úrgangi sem safnast við heimili er framleitt metangas og molta eða jarðvegsbætir. Metangas nýtist meðal annars sem bifreiðaeldsneyti og molta nýtist til landgræðslu.

Samkvæmt lögum sem taka gildi árið 2023 þarf að hætta að urða lífrænan úrgang

Hefur þú spurningu eða ábendingu varðandi efni vefsins?

Sendu okkur fyrirspurn