Rétt eftir byrjun vinnudags í morgun kom upp eldur í gámi á endurvinnsluplani Kölku í Helguvík. Gámurinn er fyrir málma og má því gera ráð fyrir að einhverju hafi verið hent í hann sem hefði átt að fara aðra leið. Starfsfólk Kölku reyndi að slökkva í gámnum og virtist í fyrstu sem það væri að takast. Eldurinn magnaðist svo skyndilega og var þá óskað eftir aðstoð slökkviliðs. Bíll frá Brunavörnum Suðurnesja var kominn á vettvang nokkrum mínútum síðar og réð niðurlögum eldsins.
Ekki er ljóst á þessari stundu hver orsök eldsins var.
Starfsfólki Kölku og Brunavarna stafaði aldrei bein hætta af eldinum og eiga allir hlutaðeigandi hrós skilið fyrir skjót og markviss viðbrögð.
Atvik sem þessi eru ávallt tilefni til að brýna fyrir fólki að passa vel upp á rétta flokkun. Í fljótu bragði er vandséð hvað hefði átt erindi í þennan gám sem gæti valdið íkveikju. Rafhlöður og eldfim spilliefni eiga að fara í annan farveg.