Nú er Kalka sf. eitt af framúrskarandi fyrirtækjum ársins 2025 samkvæmt úttekt Creditinfo, sjötta árið í röð. Til að vera framúrskarandi þurfa fyrirtæki að vera traust og stöðug fyrirtæki, byggja rekstur sinn á sterkum stoðum og efla allra hag. Fyrirtækin þurfa að uppfylla ströng skilyrði en listann í heild má finna á vef Creditinfo.
Eins og fram kom í frétt um sama mál hér í fyrra má segja breytingar séu hið venjulega ástand í Kölku. Aðlögun að nýju regluverki, nýjum kröfum, breyttum efnisstraumum og breyttum væntingum viðskiptavina hefur haldið okkur á tánum síðustu árin. Ekki sér fyrir endann á þeirri vegferð. Til allrar hamingju er Kalka vel mönnuð fólki sem veigrar sér ekki við breytingum. Oftar en ekki erum við að upplifa þær sem framfarir og það er miklu skemmtilegra en að standa í stað.
Þótt starfsemi okkar í Kölku sé að mörgu leyti sýnileg öllum sem koma til okkar þá gerist líka margt á bak við tjöldin. Samhliða fjölgun hreinna flokka í söfnun hafa kröfur um gagnaskil og upplýsingagjöf verið að aukast. Kalka á auk þess í margvíslegu samstarfi og sinnir hagsmunagæslu fyrir hönd Suðurnesjanna á ýmsum vettvangi. Það skiptir miklu máli að vera með á nótunum og til að fylgjast með þróuninni er oft gott að vinna með öðrum. Okkar sýn á gögnin sem verða til í starfseminni verður stöðugt skýrari. Það auðveldar okkar að bera saman ólíkar sviðmyndir og taka ákvarðanir.
Okkur þykir hrósið vissulega gott en sá öflugi hópur sem skilar þessum góða árangri sækir kannski enn meiri umbun í góð samskipti við viðskiptavini og samstarfsaðila. Þegar vel leyst verkefni kalla fram ánægju viðskiptavina verður til orka og hvatning til að gera enn betur. Við í Kölku viljum ekki síður vera þekkt fyrir lausnamiðun og heilbrigðan metnað en að vera framúrskarandi á mælikvarða annarra.