Fara í efni

Aðalfundir

42. fundur 20. maí 2020 kl. 15:30 - 16:50 Bíósal DUUS húsa í Reykjanesbæ
Fundargerð ritaði: Jóhann Rúnar Kjærbo

42. aðalfundur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. haldinn miðvikudaginn 20. maí 2020 kl. 15:30 í Bíósal DUUS húsa í Reykjanesbæ.

Dagskrá:

1. Fundarsetning.

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3. Skýrsla stjórnar, Önundur Jónasson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri.

4. Reikningar félagsins árið 2019, Arna G. Tryggvadóttir löggiltur endurskoðandi félagsins.

5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

6. Kosning endurskoðanda.

7. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna.

8. Önnur mál.

1. Fundarsetning

Önundur Jónasson formaður stjórnar setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara

Önundur lagði til að Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga Suðurnesjum yrði kjörinn fundarstjóri og var það samþykkt samhljóða.

Berglind tók við fundarstjórn og lagði til að Jóhann Rúnar Kjærbo starfsmaður hjá Köłku yrði kjörinn fundarritari og var það samþykkt samhljóða.

Berglind tilkynnti að mættir væru fulltrúar allra eignaraðila og að fundurinn hafi verið löglega boðaður. Engar athugasemdir komu fram.

3. Skýrsla stjórnar og framkvæmdastjóra

Önundur Jónasson, stjórnarformaður og Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri fluttu skýrslu fyrir árið 2019.

Skýrsla stjórnarformanns.

Jón Norðfjörð lét af störfum eins og kom fram á síðustu tveimur aðalfundum þar sem honum var þakkað fyrir störf sín, ætla ég því ekki að dvelja við það og þakkar stjórn Kölku Jóni fyrir þau störf sem hann vann fyrir Kölku.

Steinþór Þórðarson ráðinn framkvæmdastjóri tók til starfa í byrjun október, og hefur sú reynsla sem Steinþór kemur með inn í fyrirtækið nýst á ýmsum sviðum.

Gott samstarfs hefur verið hjá stjórn félagsins og áhersla á umhverfismál og aukna endurnýtingu ásamt ábyrgri förgun úrgangs verið rauði þráðurinn í starfi stjórnar.

Sameiningarviðræður Kölku og Sorpu á haustmánuðum október var fallið frá hugmyndum um sameiningu Sorpu og Kölku.

Stjórn félagsins telur að fjölmörg tækifæri séu til staðar og staða sveitarfélaganna á Suðurnesjum sterk í úrgangsmálum samanborið við önnur sveitarfélög. Sérstaklega þegar litið er til markmiða Evrópusambandsins og skuldbindinga vegna EES um að hámarki 10% af heimilissorpi verði leyfilegt að urða 2035. Þá fara kröfur um endurnýtingu og endurnýtingarhlutfall hækkandi og því hefur stjórn Kölku lagt ríka áherslu á að vinna markvisst að auka flokkun og endurnýtingu á efni sem berst til stöðvarinnar sem og nýtingu á botnösku og afgangsvarma frá brennslu.

Áherslumál

Aukin þjónusta við íbúa — Opnunartími á gámaplani í Helguvík lengdur.

 

● Frekari flokkun á heimilisúrgangi
● Grenndarstöðvar
● Frekari flokkun á gámaplönum
● Kynningarmál — Heimasíða — samfélagsmiðlar
● Nýting orku / afgangsvarma frá brennslustöð
● Nýting timburs

Þá hefur áframhaldandi gott samstarf verið á milli sorpsamlaganna á Suðvesturlandi sem hafa fundað reglulega og unnið að sameiginlegri stefnu í úrgangsmálum á Suðvesturlandi.

Skýrsla framkvæmdastjóra

Fundarstjóri góðir fundarmenn

Ég átti því láni að fagna á síðasta ári að vera valinn úr hópi umsækjenda til að veita Kölku forstöðu. Þótt starfsaldurinn sé enn stuttur er ég viss um að fyrir mig var það gæfuspor og spennandi tækifæri. Ég mætti til starfa fyrsta október og vann fyrst í stað við hlið forvera míns, Jóns Norðfjörð. Leiðsögn hans hefur verið ómetanleg og sá stuðningur sem hann er alltaf tilbúinn að veita ef á þarf að halda. Hans yfirsýn og minni á atburði í rekstri fyrirtæksins kemur sér oft vel og við í Kölku erum heppin með hversu áhugasamur hann er um að hjálpa þegar svo ber við. Það ber að þakka.

Þegar ég kom til Kölku hafði hugmyndum um sameiningu við Sorpu verið ýtt út af borðinu og mikill einhugur meðal stjórnar og starfsmanna að byggja fyrirtækið upp til framtíðar. Samstíga og áhugasöm stjórn vakti strax bjartsýni mína. Fljótlega varð mér einnig ljóst hversu gott samstarf er milli fyrirtækja í þessum geira en það er leitun að fyrirtæki í sorpmálum sem Kalka á ekki í samstarfi við. Þá á ég ekki bara við þau fyrirtæki sem við höfum stóra samninga við heldur bókstaflega öll fyrirtæki í greininni. Þetta tel ég vera algjörlega til fyrirmyndar enda eru viðfangsefnin orðin mörg og oft flókin.

Árið 2019 er fyrsta heila árið í rekstri eftir að flokkun úrgangs frá heimilum hófst á Suðurnesjum. Heilt yfir hefur þessi breyting gengið vel og hlutfall flokkaðs úrgangs á heimilum hefur verið vel viðunandi. Við viljum þó gera betur og hækka flokkunarhlutfallið en það myndi hvert einasta sorpsamlag og sveitarfélag landsins vilja gera líka.

Á haustmánuðum hófum við undirbúning að kynningar- og fræðsluverkefnum, meðal annars með bætta flokkun að markmiði. Þegar Covid veiran skaut svo upp kollinum, með tilheyrandi raski, höfðum við haldið fyrsta íbúafundinn af fjórum fyrirhuguðum en urðum því miður að setja frekara fundahald á bið.

Í fyrrahaust settum við einnig á áætlun að endurnýja vef Kölku og settum í það fjármuni í áætlun fyrir þetta ár. Sú vinna er komin vel af stað og það styttist í að nýr vefur fari í loftið.

Þá undirbjuggum við einnig lengingu á opnunartíma í Helguvík en sú breyting kom til framkvæmda í febrúar á þessu ári. Undirbúningur að opnun grenndarstöðva hófst einnig í fyrra og er hann í fullum gangi.

Á síðsta ári var töluverð gerjun í umræðu um framtíð sorpbrennslu á Íslandi, bæði á opinberum vettvangi og í óformlegri umræðu áhugasamra aðila. Fyrir Alþingi liggur tillaga til ályktunar um þörf fyrir sorpbrennslu og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur falið Umhverfisstofnun að gera mat á framtíðarþörf fyrir brennslugetu. Það er ekkert áhlaupaverk enda afar erfitt að sjá hvernig okkur muni miða í átt að hringrásarhagkerfinu, hvernig þróun endurnýtingar og endurvinnslu muni verða í bráð og lengd. Stjórn og stjórnendur Kölku hafa nýtt vel sín tækifæri til að fylgjast með og taka þátt í þessari umræðu. Hvergi á landinu er meiri reynsla af brennslu úrgangs en hjá Kölku enda finnum við að til okkar er leitað.

Starfsemi félagsins á árinu 2019 gekk vel og var magn á úrgangs sem tekið var á móti í stöðinni svipað og árið á undan. Vegna stórs viðhaldsverkefnis var brennsla þó 900 tonnum minni en á fyrra ári þótt móttekið heildarmagn hafi verið heldur meira. Mun meira efni var flutt til endurvinnslu eða rúm 3400 tonn, samanborið við 2035 tonn árið 2018. Niðurstaðan varð því sú að þrátt fyrir talsvert minni brennslu fór nokkru minna magn til urðunar í fyrra en árið á undan.

Heildarmagn úrgangs sem barst til fyrirtækisins árið 2019 var tæp 18.500 tonn sem er um 100 tonnum meira en árið 2018. Í brennslustöðinni voru brennd tæplega 10.500 tonn.

Eins og ársreikningur félagsins ber með Sér að þá skilaði Kalka hóflegum rekstrarafgangi á síðasta ári og eiginfjárhlutfall félagsins hækkaði um rúm 3%. Hægt var að fjármagna viðhald og endurbætur með fjármunum frá rekstri, án nýrrar lántöku.

Viðhaldsverkefnið sem vikið hefur verið að er líklega það stærsta sem ráðist hefur verið í frá því stöðin var tekin í notkun árið 2004. Brennslan var stöðvuð þrisvar á síðasta ári í rúmlega 50 daga. Brennsludagar á árinu voru því um 310 sem er með minnsta móti frá upphafi. Í árlegu viðgerðarstoppi í apríl-maí var stoppað í um 40 daga. Þá var endurnýjaður um fjögurra metra kafli af eldmúr í ofni stöðvarinnar og restin af ofninum húðaður með slitþolnu efni. Einnig var endurnýjaður eldmúr í þaki eftirbrennslunnar og skipt um loftkæli á þaki rafstöðvar. Keyptur var krabbi í gryfju og öskusigti endurnýjað. Stálviðgerðir voru á þili í gryfju, á innmötunarbúnaði, sprengilúgum og ketilhurðum. Aftur var stoppað í júní í 4 daga þegar rör í katli stöðvarinnar gaf sig. Stöðva varð síðan brennslu í þriðja skiptið í október í 5 daga þegar hraðastýring eyðilagðist.

Endurnýjun á eldmúr og nýr krabbi auka verulega rekstraröryggi stöðvarinnar og gera m.a. kleift að keyra hana undir meira álagi en ella vari. Brennsludagar á þessu ári ættu að óbreyttu að vera um 350 og ekkert ætti að standa í vegi fyrir að unnið verði á fullum afköstum.

Á síðasta ári var lokið við byggingu 125 m2 skýlis fyrir spilliefni í samvinnu við HUG verktaka ehf. og Verkfræðistofu Suðurnesja.

Spilliefnaskýlið er með frárennsliskerfi sem tengt er við sand- og olíuskilju og lokaðan safngeymi. Skýlið auðveldar mjög móttöku og meðferð spilliefna til brennslu auk þess að auka öryggi í meðhöndlun þeirra. Þetta gerir Kölku kleift að bæta þjónustu við viðskiptavini með því að taka á móti stærri förmum, geyma efnin í öruggri geymslu og skammta þau inn í brennsluna í hæfilegum skömmtum.

Umhverfisstofnun heimsótti Kölku tvisvar á árinu 2019 til eftirlits. Eitt frávik var skráð vegna efnainnihalds í útblæstri. Þegar hefur verið gripið til ráðstafana vegna þessa en samþykktri úrbótaáætlun skal vera lokið 1. júlí næstkomandi.

Samskipti við Umhverfisstofnun eru góð en stofnunin fylgir vel eftir eðlilegum kröfum og hefur gott eftirlit með því að ákvæðum starfsleyfis og lögum og reglugerðum sé framfylgt.

Til stóð að flytja út 1300 tonn af flugösku á síðasta ári. Af því varð þó ekki vegna skorts á heppilegum skipakosti. Askan var því geymd í húsnæði félagsins að Fitjabraut 10 í Njarðvík og flutt út í byrjun þessa árs. Fyrirtækið NOAH í Noregi sá um móttöku og meðhöndlun á öskunni.

Sorpsamlögin á Suðvesturlandi hafa á undanförnum árum haft með sér samvinnu um ýmis mál. Má þar nefna endurskoðun á svæðisáætlun í úrgangsmálum sem nú er unnið að fyrir tímabilið 2019 til 2030. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki á þessu ári. Á síðasta ári komu sorpbrennslumál talsvert til umræðu á þessum vettvangi enda er ljóst að í áætlun fyrir svæðið er þörf fyrir brennslu, annað hvort hér á landi eða útflutning á efni til brennslu. Einnig höfum við tekið virkan þátt í samstarfi á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga um hagsmunagæslu sorpsamlaga sveitarfélaga á öllu landinu.

Góðir fundarmenn. Ég veit að á aðalfundi er fyrst og fremst horft um öxl og gert upp liðið ár. Þar sem minni mitt sem framkvæmdastjóri Kölku er tvöfalt lengra á þessu ári en því síðasta get ég ekki stillt mig um að brjóta þessa reglu lítillega. Það dylst engum sem starfar í þessum geira að gerjunin er mikil og óhjákvæmilega eru miklar breytingar á sjóndeildarhringnum. Það sem liggur að veði er umhverfið, landið og heimurinn sem við eftirlátum börnunum okkar. Við þurfum að lágmarka sorp, endurnýta og endurvinna og farga því sem út af stendur á ábyrgan hátt. Suðurnesin hafa sérstöðu hér á Iandi og oft fær maður á tilfinninguna að margir vildu eiga brennslu eins og Kölku.

Eins og þau gögn sem lögð eru fram hér í dag bera vitni um er Kalka fyrirtæki í ágætu rekstrarlegu jafnvægi. Kalka er og á að vera heildarlausn fyrir eigendur sína, sveitarfélögin og íbúana. Kalka á einnig að vera þekkingarsetur um úrgangsmál og skapa eigendum sínum vettvang til að þróa og innleiða nýjar lausnir. Það gerir Kalka best með því að hlusta eftir rödd sinna veðhafa og greina og skilja það umhverfi sem er að teiknast upp fyrir framan okkur á sviði úrgangsmála. Hagsmunirnir sem liggja undir eru sameiginlegir með okkur öllum og sigrarnir sem við vinnum eiga að vera okkar allra.

Við lifum nú fordæmalausa tíma. Við í Kölku höfum verið þátttakendur í landsáætlun Almannavarna og höfum þurft að standa vaktina m.a. í brennslu sóttmengaðs úrgangs. Bein áhrif veirunnar á okkar starfsemi eru e.t.v. ekki mikil en ég efa að nokkur stjórnandi geti sagt að ástandið hafi ekki með einhverjum hætti sett mark sitt á viðfangsefnin og umfram allt fólkið. Á stjórnarfundum í Kölku höfum við stöðugt verið að endurskoða forgangsröð og leitast við að beina kröftunum í verkefni sem hægt er að vinna í samkomubanni og undir ýmsum takmörkunum. Núna þegar rofar til í faraldrinum á að vera bjart framundan. Það er mín von að á næsta aðalfundi getum við litið um öxl og gert upp gott ár, þrátt fyrir skakkaföllin.

Takk fyrir.

4. Ársreikningur félagsins árið 2019

Arna G. Tryggvadóttir löggiltur endurskoðandi hjá PWC kynnti ársreikning fyrirtækisins fyrir árið 2019. Heildarrekstrartekjur námu um 690 mkr., en voru rúmar 652 mkr. árið 2018. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu tæplega 527 mkr., en voru tæplega 503 mkr. árið 2018. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig rúmlega 163 mkr. en var rúmar 149 mkr. árið 2018. Heildarhagnaður ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nam 71,8 mkr. en var 61,9 mkr. árið 2018. Í árslok 2019 námu heildareignir félagsins 1.220,9 mkr. en skuldir og skuldbindingar námu 811,8 mkr. Eigið fé er 409 mkr. og eiginfjárhlutfall félagsins er 33,5% samanborið við 29,9% í árslok 2018.

5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning félagsins

Einar Jón Pálsson bæjarfulltrúi í Suðurnesjabæ óskaði nýjum framkvæmdastjóra Kölku velkominn til starfa og jafnframt stjórn félagsins fyrir niðurstöðu ársins sem og starfsmönnum Kölku og fyrrum framkvæmdastjóra fyrir þeirra framlag. Varðandi einstaka liði í rekstri félagsins vildi Einar Jón fá að vita ástæðuna fyrir nokkuð verulegri hækkun launa á síðasta ári en það væri ekki getið sérstaklega til um það í ársreikningnum, t.d. hvort stöðugildin hefðu breyst. Þá nefndi Einar Jón að stjórnarkostnaður væri mun hærri milli ára og væri áhugavert að heyra skýringar á því. Að öðru leyti fagnaði Einar Jón góðri niðurstöðu.

Friðjón Einarsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ þakkaði fyrir greinagóða skýrslu stjórnarformanns og framkvæmdastjóra og um leið þakkaði hann fyrrum framkvæmdastjóra fyrir sín störf. Ársskýrslan væri til sóma og sýndi að við værum á réttri leið. Þá vék Friðjón að framtíðarhorfum félagsins og tók undir orð framkvæmdastjóra um framtíðina, að hún er ekki eins ljós og hún virðist vera og nefndi í því sambandi stöðu sorpmála á suðvesturhorni landsins, meðal annars fyrirhugaðan útflutning Sorpu á sorpi og nýjar sorpbrennslustöðvar á teikniborðinu. Að öðru leyti hefur staða Kölku aldrei verið betri og nú.

Steinþór svaraði spurningu Einars Jóns varðandi launahækkanir milli ára á þá leið að megin skýringin er að tvímennt var í stóli framkvæmdastjóra undir lok árs. Einnig hefðu verið almennar launahækkanir á tímabilinu hjá nokkrum stéttarfélögum. Varðandi hækkun stjórnarkostnaðar þá lagði stjórnin í heilmikla vinnu við val á nýjum framkvæmdastjóra. Þá eru stöðugildin mjög svipuð milli ára, fyrir utan tvo framkvæmdastjóra undir lok árs.

Fundarstjóri bar ársreikning Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. fyrir árið 2019 upp til atkvæða og var ársreikningurinn samþykktur samhljóða.

6. Kosning Iöggilts endurskoðanda

Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið Price Waterhouse Coopers ehf. verði endurskoðandi félagsins en sú tillaga er samkvæmt útboði á endurskoðun sem gera var í samstarfi við Ríkiskaup í desember 2018 en boðið var út til tveggja ára. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

7. Tillaga um þóknun til stjórnarmanna

Lagt er til að stjórnarlaun verði óbreytt frá fyrra ári, að formaður stjórnar fái 5% af þingfararkaupi fyrir hvern fund, en aðrir stjórnarmenn fái 4% af þingfararkaupi fyrir hvern fund. Þingfararkaup í dag er 1.170.569 kr, þannig að formaðurinn fær þá 58.528 kr fyrir hvern fund, en aðrir stjórnarmenn fá 46.823 kr. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.

8. Önnur mál.

Jón Norðfjörð fráfarandi framkvæmdarstjóri Kölku flutti eftirfarandi kveðjuorð:

Sæl öll ágæta fundarfólk.

Mig langaði til að vera hér í dag og segja við ykkur nokkur kveðjuorð. Ég ætla ekki að fara ítarlega yfir starfsemi Kölku þann tíma sem ég stjórnaði daglegum rekstri, en ég ætla að nefna nokkur erfiðustu verkefnin.

Ég held að ég hafi verið með einhvers konar kveðjuorð til ykkar tvisvar áður en nú er þetta örugglega í síðasta sinn. Ég stjórnaði daglegum rekstri Kölku fram í byrjun október á síðasta ári, en dró mig fljótlega í hlé eftir að Steinþór tók við. Ég hafði þá sinnt starfi framkvæmdastjóra fyrirtækisins í liðlega 8 ár.

Þegar starfið var auglýst árið 2011 var ég ekki með það í huga að ætla að ráða mig í fasta vinnu, en ég hafði þá nokkrum árum áður selt EIMSKIP fyrirtæki mitt, Skipaafgreiðslu Suðurnesja.

Tveir sveitarstjórnarmenn úr sín hvoru bæjarfélaginu höfðu samband við mig og hvöttu mig til að sækja um starfið. Þeir höfðu væntanlega trú á því að ég gæti lagt eitthvað að mörkum til að snúa mjög erfiðu rekstrarástandi fyrirtækisins til betri vegar.

Í dag er ég þessum aðilum mjög þakklátur og einnig stjórninni sem réð mig til starfa því að eftirá að hyggja hefði ég sannarlega ekki viljað missa af tækifærinu að takast á við þetta starf.

Erfiðustu verkefnin voru tvímælalaust að laga slæma fjárhagsstöðu, lækka skuldir, laga eiginfjárstöðu úr miklum mínus í góðan plús, taka umhverfismálin föstum tökum, leysa áralangan vanda sem varðaði ráðstöfun uppsafnaðrar flugösku og einnig að koma botnöskunni í réttan ráðstöfunarfarveg. Mörg fleiri verkefni biðu úrlausnar svo sem átak í viðhaldsmálum, breytingar í starfsmannamálum og fleira og fleira.

Með mjög góðu og öflugu samstarfi við góða og samtaka stjórnarmenn, duglega og samviskusama starfsmenn og alla stærstu viðskiptavini, sem meðal annars sýndu nauðsynlegum gjaldskrárbreytingum góðan skilning, tókst bærilega vel til við að leysa öll helstu vandamálin.

Þó að oft sé erfitt að nefna einstaka aðila þegar samstaðan er góð, þá vil ég engu að síður nefna þá sem unnu hvað mest með mér og oft af miklu harðfylgi. Þetta voru stjórnarformennirnir Ríkharður Íbsen og Birgir Már Bragason, og af starfsmönnum vil ég sérstaklega nefna Ingþór Karlsson rekstrarstjóra brennslunnar og þá Jóhann Kjærbo og Kára Húnfjörð.

Það þarf góða og samtaka heild til að bæta fjárhagslega stöðu um meira en einn milljarð króna (eitt þúsund milljónir) á tiltölulega stuttum tíma í ekki stærra fyrirtæki en Kalka er.

Öllu mínu góða samstarfsfólki í Kölku vil ég færa mínar bestu þakkir og góðar kveðjur fyrir einstaka samheldni og frábært samstarf við úrlausn á erfiðum verkefnum. Ég þakka sveitarstjórnarfólki fyrir mjög gott samstarf og svo vil ég aftur þakka fyrir tækifærið að fá að taka þátt í miklu uppbyggingarverkefni hjá fyrirtækinu.

Þessa dagana er okkur tíðrætt um þetta skrítna ástand sem við höfum verið að upplifa að undanförnu. Auðvitað verðum við að vera bjartsýn um að betri dagar séu í vændum og ég trúi því að svo sé.

Að endingu vil ég óska þess að fyrirtækið og við íbúar og eigendur þess munum framvegis njóta góðs af því endurskipulagningarferli sem ráðist var í og skilaði þeirri góðu niðurstöðu sem raun ber vitni. Takk fyrir.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar þakkaði fyrir greinagóðar skýrslur og ánægjulegar niðurstöður úr ársreikningnum. Kjartan spurðist fyrir um hvort það væri einhver umræða eða vangaveltur í stjórn eða hjá framkvæmdastjóra um það hvernig við getum mætt þeirri stöðu sem við sjáum þegar við göngum hér um skagann okkar, að hversu oft sem við förum í hreinsunarátak og tekið er til, að jafnharðan eru hlutir sem kostar ekkert að farga, komnir í gjótur, skurði, máa eða útí vegarkant, hvort hægt sé að kynna þessi mál betur fyrir íbúa svæðisins og hvort eitthvað slíkt sé á döfinni.

Varðandi hreinsunarátök sveitarfélaganna á vorin vildi Kjartan Már vita hvort hægt væri að tengja þetta betur saman við hreinsunarátak íbúa, þannig að íbúarnir gætu komið á þessu tímabili, í einn til tvo daga, með dótið sitt og hent gjaldfrjálst.

Önundur svaraði Kjartani Má og tók undir það að nauðsynlegt væri að kynna gjaldskrána betur og nýta okkar miðla betur til kynningar og að því væri verið að vinna. Varðandi seinni spurningu Kjartans Más um hvort væri hugsanlega að hafa opinn dag, þá hefur þetta verið reynt áður, gámaplönin fylltust undir eins og ástandið var óviðráðanlegt, allir höfðu verið að safna rusli og beðið eftir þessum degi. Hins vegar væri möguleiki að útfæra þetta eitthvað öðruvísi og benti á í því sambandi að plokkdagurinn í apríl síðastliðnum hefði lukkast vel.

Steinþór benti á að við höfum verið boðið að borðinu í stefnumótunarferli Úrvinnslusjóðs í fyrra og þessi mál eins og úrvinnslugjald á húsgögn er umræðuefni og áhugi fyrir og gæti orðið hluti af lausninni einhvern tíman síðar.

Inga Rut Hlöðversdóttir, stjórnarmaður í Kölku, þakkaði Jóni fyrir hans framlag sem framkvæmdastjóra og væri vissulega ánægð með nýja framkvæmdastjórann líka. Inga Rut velti upp varðandi ruslið á víðavangi, hvort ekki mætti þýða upplýsingabæklinga á fleiri tungumál og nefni í því sambandi rússnesku og litháísku. Þá sagðist Inga Rut vera hörð á því að það kemur ný brennslustöð og þá værum við á gömlum bíl miðað við þann nýja bíl sem kemur og við ættum því að reyna að vinna í því að fá þessa nýju brennslustöð til okkar.

Fundarstjóri Berglind Kristinsdóttir þakkaði starfsmönnum, stjórnendum og stjórn Kölku fyrir þeirra framlag til Kölku og fundarmönnum fyrir góða fundarsetu og óskaði öllum frábærs ferðasumars innanlands og hvatti sérstaklega til ferðalaga um Reykjanesið og að nýta þjónustuna sem hér er í boði.

Fleira var ekki gert og var fundi slitið kl. 16:50.

Jóhann Rúnar Kjærbo, fundarritari Berglind Kristinsdóttir, fundarstjóri

42. aðalfundur Kölku sorpeyðingarstöðvar sf á PDF formi, hentugt til útprentunar

Hefur þú spurningu eða ábendingu varðandi efni vefsins?

Sendu okkur fyrirspurn