Fara í efni

Stjórnarfundir

500. fundur 20. febrúar 2019 kl. 16:30 - 18:30 Fundarsal Kölku að Berghólabraut 7
Nefndarmenn
  • Inga Rut Hlöðversdóttir
  • Ásrún Helga Kristinsdóttir
  • Laufey Erlendsdóttir
  • Páll Orri Pálsson
  • Önundur Jónasson
  • Jón Norðfjörð
Fundargerð ritaði: Jón Norðfjörð

500. fundur stjórnar Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. haldinn miðvikudaginn 20. febrúar 2019 kl. 16:30 í fundarsal Kölku að Berghólabraut 7 í Reykjanesbæ. Mætt eru: Inga Rut Hlöðversdóttir, Ásrún Helga Kristinsdóttir, Laufey Erlendsdóttir, Páll Orri Pálsson, Önundur Jónasson og Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri sem ritaði fundargerð.

Inga Rut Hlöðversdóttir formaður setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna.

Dagskrá:

1. Kynningarfundur vegna sameiningarviðræðna Kölku og SORPU

2. Niðurstöður útboðs á tryggingum og endurskoðun

3. Rekstraryfirlit 2018

4. Tillaga um dagsetningu aðalfundar 2019

5. Bygging spilliefna- og botnöskuskýla

6. Nokkur rekstrarmál

7. Önnur mál

1. Kynningarfundur vegna sameiningarviðræðna Kölku og SORPU

Eins og fram kom á síðasta stjórnarfundi, var samþykkt að vísa frekari ákvörðunum um framhald viðræðna Kölku og SORPU um mögulega sameiningu fyrirtækjanna til bæjarstjórna sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Nú hefur verið ákveðið að ráðgjafar Capacent sem unnu að undirbúningi málsins með stjórnum og viðræðunefndum fyrirtækjanna mæti á kynningarfund fyrir bæjarfulltrúa og bæjarstjóra sveitarfélaganna í bíósal Duushúsa fimmtudaginn 28. febrúar nk. kl. 16:30 þar sem farið verður yfir stöðu málsins og tillögur að umræðugrundvelli mögulegrar sameiningar. Búið er að senda öllum viðkomandi fundarboð.

2. Niðurstöður útboðs á tryggingum og endurskoðun

Tilboðin sem bárust í endurskoðun og tryggingar fyrir fyrirtækið hafa nú verið yfirfarin og niðurstöður liggja fyrir. PriceWaterhouseCoopers ehf. voru með hagstæðasta tilboðið í endurskoðunina kr. 1.935.000 og taka við verkefninu frá og með 1. janúar 2019. Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte ehf. hefur annast endurskoðun fyrir Kölku undanfarin ár og er Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur og öðru starfsfólki félagsins færðar bestu þakkir fyrir gott samstarf. Það var svo Vátryggingafélagi Íslands ehf. sem var með hagstæðasta gilda tilboðið í tryggingarnar kr. 3.989.174, en félagið hefur annast tryggingarmálin fyrir Kölku undanfarin ár. Öll tilboð voru yfirfarin og metin hjá Ríkiskaupum. Búið er að ræða við framangreinda aðila og ganga frá samkomulagi við þá.

3. Rekstraryfirlit 2018

Framkvæmdastjóri lagði fram óendurskoðað rekstraryfirlit ársins 2018 beint úr bókhaldi fyrirtækisins. Fram kom að afkoma fyrirtækisins stefnir í að vera heldur betri en árið 2017. Rekstrartekjur hafa hækkað nokkuð frá fyrra ári og eru um 651 m.kr. miðað við 623 mkr. árið 2017, en rekstrargjöld hafa heldur lækkað og eru um 503 m.kr. miðað við 524 mkr. árið 2017.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er þ.a.l. um 148 m.kr. Stjórnin lýsir ánægju með áætlaða afkomu og rekstrarniðurstöðu.

4. Tillaga um dagsetningu aðalfundar 2019

Í samþykktum félagsins segir að jafnaði skuli halda aðalfund í aprílmánuði ár hvert. Venjulega hafa aðalfundir verið haldnir á fimmtudögum sem virðast henta vel fyrir flesta sveitarstjórnarmenn. Nú hagar svo til að tveir síðustu fimmtudagar í apríl eru hátíðisdagar og þ.a.l. er lagt til að aðalfundurinn færist aðeins til og verði haldinn fimmtudaginn 2. maí n.k. kl. 15:30. Framkvæmdastjóra falið að undirbúa og boða til fundarins og annast undirbúning dagskrár í samráði við formann stjórnar.

5. Byggingspilliefna- og botnöskuskýla

Framkvæmdir við byggingar á botnösku- og spilliefnaskýlum hófust hinn 11. febrúar sl. Ekki liggur fyrir hvenær verklok verða, en reynt verður að flýta framkvæmdum svo sem kostur er. Það eru HUG verktakar ehf. sem annast verkefnið.

6. Nokkur rekstrarmál

Búið er að festa kaup á 2,5 tn. skotbómulyftara af gerðinni Manitou MT625. Kaupverð án vsk. er kr. 6.450.000. Ósk um endurnýjun starfsleyfis fyrir endurvinnsluplönin í Grindavík og Vogum hefur verið sent til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og er nú í vinnslu. Rætt hefur verið um möguleika til að koma fyrir grendargámum í sveitarfélögunum fyrir glerkrukkur og önnur smærri glerílát. Engin formleg beiðni hefur þó borist frá sveitarfélögunum um slíka þjónustu. Upplýst er að gleri er safnað á höfuðborgarsvæðinu að ósk sveitarfélaganna með þessum hætti og annast Gámaþjónustan verkefnið og sveitarfélögin ákveða staðsetningu og greiða sérstaklega fyrir þjónustuna. Gler sem safnast með þessum hætti fer ekki í endurvinnslu, heldur er því safnað á vegstæði væntanlegrar Sundabrautar í Álfsnesi. Framkvæmdarstjóra falið að kanna mögulegan kostnað vegna uppsetningar glergáma.

Rætt var um opnunartíma á endurvinnsluplönum. Gert er ráð fyrir að málið verði rætt áfram á næsta fundi.

7. Önnur mál

1. Næsti stjórnarfundur er áætlaður 21. mars 2019.

Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 18:30

Inga Rut Hlöðversdóttir
Ásrún Helga Kristinsdóttir
Laufey Erlendsdóttir
Páll Orri Pálsson
Önundur Jónasson
Jón Norðfjörð

500. fundur stjórnar Kölka sorpeyðingarstöðvar sf á PDF formi, hentugt til útprentunar

Hefur þú spurningu eða ábendingu varðandi efni vefsins?

Sendu okkur fyrirspurn