Stjórnarfundir
Dagskrá:
1. Ný áætlun Verkfræðistofu Suðurnesja um nýbyggingu
2. Áætlun Kölku fyrir 2026
3. Tilboð HS Veitna í eignir Kölku að Fitjabraut 10
4. Skýrsla framkvæmdastjóra
5. Þjóðarbrennsla - breytt upplegg undirbúningsfélags
6. Erindi frá Reykjanesbæ um rekstur á jarðvegstipp - Nýjar upplýsingar
7. Önnur mál
1. Ný áætlun Verkfræðistofu Suðurnesja um nýbyggingu
Tekin var til umfjöllunar ný og ítarlegri áætlun VS um byggingu stálgrindarhúss á athafnasvæði Kölku í
Helguvík. Stálgrindarhúsið er undir sorpflokkun, notuð sem öskugeymsla og móttaka. Marinó
Gunnarsson byggingartæknifræðingur sat fyrir svörum. Stjórn samþykkir tilboð verkfræðistofunnar í
hönnunarvinnu og gerir ekki athugasemdir við kostnaðaráætlun heldur óskar þess að undirritaður
verði samningur við VS hið fyrsta og áhersla lögð á að hefja framkvæmdir sem fyrst.
2. Áætlun Kölku fyrir 2026
Framkvæmdastjóri og fjármála- og skrifstofustjóri kynntu nokkra meginliði áætlunar, með áherslu á
liði sem snerta sveitarfélögin beint. Meðal þess sem fram kom var: -
-Launaáætlun fyrir 2026 endurspeglar kjarasamningsbundnar launahækkanir og fjölgun
stöðugilda.
-Áætlun vegna sorphirðu hækkar sem nemur samningsbundum vísitöluhækkunum og
fjölgun íbúa.
-Áætlun vegna ráðstöfunar (brennsla, gas- og jarðgerð, endurvinnsla og urðun) á efni frá
íbúum á Suðurnesjum lækkar talsvert frá fyrra ári. Með bættum árangri í flokkun fer meira
af efni í endurvinnslufarvegi þar sem úrvinnslugjald kemur til niðurgreiðslu kostnaðar.
Kostnaður vegna brennslu lækkar því all nokkuð. Enn er verið að skoða nokkra liði, m.a.
textílefni en kostnaður vegna þess hefur verið vanáætlaður. Heildarniðurstaðan verður
íbúum í hag.
-Framkvæmdastjóri upplýsti að af ýmsum orsökum væri vinna við áætlunina heldur seinna
á ferðinni en undanfarin ár. Til að sveitarfélögin geti fengið áætlunina í hendur í byrjun
nóvember gerir framkvæmdastjóri að tillögu að gefnar verði tvær vikur til að ljúka þessari
vinnu. Fundur stjórnar sem átti að halda 11. nóvember verði færður til 28. október og
umfjöllun um áætlun verði lokið þá.
3. Tilboð HS Veitna í eignir Kölku að Fitjabraut 10
Eignir Kölku sf. að Fitjabraut 10 í Reykjanesbæ hafa verið til sölumeðferðar hjá fasteignasölunni
Stuðlabergi um skamma hríð. Kölku barst erindi frá framkvæmdastjóra fjármála hjá HS Veitum að
báðum fyrirvörum HS Veitna vegna tilboðs í eignina, um ástandsskoðun og samþykki stjórnar hafi
verið aflétt. Erindið barst með tölvupósti 13. okt. ´25.
Framkvæmdastjóri leggur til að stjórn Kölku samþykki tilboðið og honum verði falið að ganga frá
sölunni. Samþykkt af öllum greiddum atkvæðum.
4. Skýrsla framkvæmdastjóra
Framkvæmdastjóri fjallaði um það helsta í rekstrinum frá síðasta fundi. Brennslan var í
viðhaldsstoppi frá 20. september til 10 október, talsvert lengur en áætlað var. Meginástæðan var
bilun sem kom upp í tjakk á innmötunarbúnaði í meðferð verktaka. Framkvæmdastjóri hefur óskað
eftir að atvikið verði rannsakað og raunveruleg orsök bilunarinnar verði fundin. Stoppið var m.a. nýtt
til að funda með starfsfólki brennslunnar, sem eðli máls samkvæmt hittist sjaldan. Farið var yfir
breytingar í efnisstraumum og aðgerðir sem ráðast þarf í til að bregðast við breyttum veruleika.
Upplýst var að keyptur hefur verið frystigámur til að geyma dýraleifar sem koma til eyðingar. Einnig
kom fram að samtal er komið á milli Kölku og HS Veitna um nýtingu orkunnar frá stöðinni. Er það vilji
beggja aðila að vinna málið hratt.
5. Þjóðarbrennsla - breytt upplegg undirbúningsfélags
Framkvæmdastjóri kynnti nýjar vendingar í samstarfi Kölku, Sorpu, Umhverfis- og orkuráðuneytisins
og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna undirbúnings að stofnun undirbúningsfélags vegna nýrrar
sorporkustöðvar. Meginbreytingin með nýju uppleggi er að skuldbinding ráðuneytisins er skýr og
mun framlag þess koma til félagsins í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga. Stjórn Sorpu
samþykkti á fundi sínum í gær (13. okt. ´25) að ganga til samstarfs við Kölku um stofnun félagsins.
Stjórn felur framkvæmdastjóra að vinna með samstarfsaðilum að stofnun félags með fyrirvara um að
samþykktir félagsins og hluthafasamkomulag fái samþykki stjórnar Kölku.
6. Erindi frá Reykjanesbæ um rekstur á jarðvegstipp - Nýjar upplýsingar
Framkvæmdastjóri upplýsti að á fundi með stjórnendum hjá Sorpu hafi verið upplýst að Sorpa annist
ekki lengur rekstur jarðvegstipps á Bolaöldu. Það samstarf var kveikjan að þeirri hugmynd að Kalka
tæki við þessum rekstri fyrir Reykjanesbæ. Skv. Sorpu var samlegð í starfsemi á Bolaöldu við með
annarri starfsemi fyrirtækisins ekki sú sem búist var við. Verktakafyrirtæki annaðist hluta
þjónustunnar og varð úr að það tók yfir hluta Sorpu í verkefninu. Mun það hafa gefið góða raun.
Vegna ýmissar óvissu í Kölku um þessar mundir og stórra verkefna í farvatninu er það sameiginlegt
mat stjórnar og framkvæmdastjóra að ekki sé lag til að ráðast í þetta verkefni fyrir Reykjanesbæ að
svo stöddu. Kalka býðst til að aðstoða eftir föngum og deila af reynslu, m.a. af rekstri
myndavélakerfa en telur sig ekki hafa bolmagn sem stendur til að taka verkið yfir í heild.
7. Önnur mál
Engin önnur mál voru lögð fram á fundinum.
Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum slitið kl. 18:15.
Næsti fundur er áætlaður þriðjudaginn 28. október 20
Fundargerð samþykkt með rafrænni undirritun.